Um miðjan júlí 2010 var auglýst eftir þátttakendum í tilraunaverkefnið 'Rafbílar fyrir almenning'. Yfir hundrað og þrjátíu umsóknir bárust, auk þess sem fjöldi fólks og fyrirtækja hringdi vegna mikils áhuga á málefninu. Farið var í gegnum umsóknir, þær metnar og að lokum voru átta fjölskyldur valdar úr hópnum en verkefnið hafði það að markmiði að bjóða átta íslenskum fjölskyldum að leigja visthæfa bíla og safna gögnum um reynslu og viðtökum þeirra á tímabilinu.
Auk umhverfislegs ávinnings fylgdumst við hjá Íslenskri NýOrku náið með fjölskyldunum til að öðlast upplýsingar um notkunarmynstur slíkra bíla og orkunotkun í hefðbundinni notkun. Mikilvægustu upplýsingarnar eru þó að kanna væntingar fólks til slíkra bíla og hvort þeir uppfylli þarfir þátttakenda. Um er að ræða tilraunaverkefni nýtast upplýsingarnar sem þar safnast til undirbúnings á markaðssetningu rafbíla í framtíðinni.
Eitt af því sem kannað var er aðgengi fólks að orku. Varðandi vetni þarf að taka tillit til þess að aðeins ein eldsneytisstöð er í landinu, Skeljungsstöðin á Vesturlandsvegi. Varðandi rafgeymabílinn þurftu þátttakendur að huga að aðgengi að innstungum til að hlaða rafgeymana.
Verkefnið hefur til umráða 3 vetnisrafbíla af gerðinni Ford Focus og 2 rafgeymabíla af gerðinni Mitsubishi iMIEV og Th!nk.
Verkefnið er styrkt af Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar og Orkusjóði. En verkefnið er einnig styrkt af ferðaskrifstofunni Ísafold, Höldur - bílaleigu Akureyrar ásamt Heklu og NORA rannsóknasjóði.
Hér má nálgast lokaskýrslu verkefnisins.
Mitsubishi iMiEV – rafgeymabíll
Annar rafgeymabílanna sem nýttur var í verkefninu er Mitsubishi iMiEV rafgeymabíll. Bíllinn er raðsmíðaður, undanfari fjöldaframleiðslu, árgerð 2010. Rafgeymabíllinn er búinn nýjustu tækni, hefur lithium-ion rafhlöður og er skráður með 120 km sem hámarksvegalengd á fullri hleðslu. Bílarnir eru þungir og stöðugir en sprettharðir og allur búnaður ríkulegur.
Th!nk – rafgeymabíll
Hinn rafgeymabílinn sem nýttur var í verkefninu er rafgeymabíll að gerðinni Th!nk. Hugvitið er norskt en bíllinn er smíðaður í Finnlandi. Bíllinn er framhjóladrifinn og knúinn áfram með Natríum-nikkel-chloride rafgeymum (ZEBRA Z36). Þessir rafgeymar eru svokallaðir háhita-rafgeymar sem halda hitastigi kringum 260-350°C. Bíllinn er skráður með 160 km hámarksdrægi á sumrin en 90 km drægi á veturnar.
Ford Focus – vetnisrafbíll
Vetnisrafbílarnir sem verkefnið hefur til yfirráða er bíll af fyrstu kynslóð vetnisrafbíla, árgerð 2005. Bíllinn er vetnisrafbíll, sem notar svokallaðan efnarafal til að umbreyta vetni í rafmagn sem er síðan nýtt til að knýja bílinn áfram. Þar sem bílarnir eru af fyrstu kynslóð Ford efnarafalabíla eru barn síns tíma og nokkuð hráir í útliti. Þessa bíla þarf að geyma í skúr í frosti eða tengja við vélarhitara til að forðast skemmdir á búnaði.